03.06.2021
Um þessar mundir stendur yfir skráning á gögnum sýslunefndar Skagafjarðarsýslu. Sýslunefndir urðu til í kjölfar þess að í maí 1872 var gefin út tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi og komust þá amtsráð, sýslunefndir og hreppsnefndir á laggirnar. Sýslunefnd skipuðu að öllu jöfnu 6-10 fulltrúar sem kosnir voru af sveitarfélögum. Gögn sýslunefndar eru mjög umfangsmikil og höfðu þau áður verið forskráð í safninu en nú stendur yfir yfirfærsla þeirra í Atóm sem er það skráningarkerfi sem safnið notar í dag. Um er að ræða fundargerðabækur, erindi og bréf til nefndarinnar, skrá yfir verkfæra menn í sýslunni, bókhaldsgögn og fleira. Sýslunefnd starfaði til ársins 1988 og spanna gögnin því rúmlega 100 ára tímabil.