Þéttbýlismyndun á Íslandi hófst seint miðað við önnur lönd í Evrópu. Bæir byrja ekki að myndast hér fyrr en á 19. öld og upphafi 20. aldar. Á sama tíma blómstraði útgáfa á svokölluðum sveitablöðum. Sveitablöð voru handskrifuð blöð sem gengu á milli bæja. Oft voru það lestrarfélög eða ungmennafélög á svæðinu sem stóðu fyrir útgáfunni. Megintilgangur með útgáfu slíkra blaða var að efla félagslega virkni, skemmta og fræða lesendur og standa fyrir umræðum um málefni sem brunnu á sveitungunum.
Meðal þessara málefna voru vaxandi áhyggjur af áhrifum kaupstaða á sveitamenninguna. Í fyrsta blaði Viðars, sveitablaði Viðvíkurhrepps sem leit dagsins ljós árið 1914 skrifar Guðbrandur Björnsson:
Eitt er það mál, sem blaðið okkar vill sérstaklega að um sé rætt og ritað og það eru gamlar íslenskar sveitavenjur. Við sveitamenn erum nú óðfluga að semja oss í mörgu eftir kaupstaðabúum. Siðir og búningur kaupstaðabúa, berast smásaman inn í sveitirnar og gamlir góðir íslenskir sveitasiðir verða fyrir þeim að þoka. Okkur dettur ekki í huga að halda því fram, að allir þessir nýtísku siðir séu til hins lakara, margir ugglaust fremur til bóta, þótt með rökum megi sýna að sumir stefna til hins verra og eiga als ekki við í sveitinni, þótt við þeim sé þar tekið. En það er annað sem við viljum leiða athygli sveitamanna að, og það er sú hætta sem íslenskri sveitamenningu er með þessu móti stofnað í. Hvað verður úr sjálfstæðri sveitamenningu, ef við sveitabúar sækjum alla okkar verklega og andlega hugsun til kaupstaðanna en framleiðum sárafátt nýtilegt sjálfir, og þurfum við að furða oss á því, þótt kaupstaðabúinn kynni að sjálfstæði þess sveitamanns sem semur sig að hans háttum, en getur þó ekki náð þeirri ytri fáun sem kaupstaðabúinn hefir á sér. Hér er hætta á ferðum. Hætta fyrir íslenska sveitamenningu, og vörnin gegn þessari hættu er sú, að vér varðveitum gamlar og góðar venjur forfeðra okkar og mótum þær eftir því, sem nú á við, bæði húsagerð, iðnað og búning. Hér er mikið mál til umhugsunar og umtals og vonum vér, að einhver lesandinn fái ástæðu til að rita frekar um þetta mál. Ritum vér svo ekki meir að sinni, en óskum að góðar og gamlar, íslenskar sveitavenjur eigi sem lengstan aldur vor á meðal.
Sveitablöðin eru skemmtilegar og fróðlegar heimildir um hugmyndaheim Íslendinga um aldamótin 1900. Á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga hefur hluti þessara sveitablaða verið myndaður er aðgengilegur á skjalavef safnsins:
- Stígandi. Sveitablað í Blönduhlíð.
- Stígandi. Sveitablað í Hólahreppi.
- Viðar. Sveitablað í Víkurhreppi.
- Fjallfari. Sveitablað í Sauðárhreppi.
- Gaman og alvara.
- Hjarandi. Hjaltastöðum.
- Máni
- Smári
- Viljinn
- Sveitablaðið Árgeislinn
Heimildir um sveitablöð:
Hrafnkell Lárusson: "Sveitarblöðin og erlend áhrif á íslenskt samfélagið", Ráðstefnurit. Sjöunda landsbyggðarráðstefna Sagnfræðingafélags Íslands og Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Héraðsnefnd Múlasýslna og Sagnfræðingafélags Íslands, Egilsstöðum, 2006. Bls. 75-81.
Hrafnkell Lárusson: Í óræðri samtíð með óvissa framtíð. Íslensk sveitarblöð og samfélagsbreytingar um aldamótin 1900. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík, 2006.
https://is.wikipedia.org/wiki/Sveitablöð
Sveitablaðið Viðar í Viðvíkurhreppi í skjalaskrá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga