Fara í efni

Vísnavefurinn

Árið 2002 hófst vinna við gerð gagnagrunns um lausavísur í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Verkið var unnið með tilstyrk fjárveitinganefndar Alþingis. Þá tókst að slá inn um 3000 lausavísur úr safni Sigurjóns Sigtryggssonar á Siglufirði, en safnið er varðveitt í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Árin 2003 og 2004 var unnið að gerð gagnagrunnsforrits. Þeirri vinnu lauk árið 2004 en jafnframt var safnað miklu af upplýsingum um vísnahöfunda. Í lok september 2004 voru ríflega 5000 vísur skráðar inn í grunninn eftir ríflega 1000 vísnahöfunda, en 15. janúar 2005 voru skráðar 7300 vísur eftir um 1300 höfunda. Árið 2010 voru vísurnar orðnar tæplega 30.000 og vísnahöfundarnir nær 3000. Síðari hluti verkefnisins var unninn með tilstyrk opinmenning.org sem hefur styrkt verkefnið fjárhagslega auk Menningarráðs Norðurlands vestra. Þá hefur Héraðsskjalasafn Skagfirðinga notið stuðnings Ferskeytlunnar ehf. við gerð forritsins. Einnig hefur Kristján Eiríksson íslenskufræðingur á Árnastofnun lagt verkefninu lið. Á haustdögum 2011 var ákveðið að hefja samstarf milli Stofnunar Árna Magnússonar og Héraðsskjalasafnsins með það fyrir augum að vista grunnana á sama stað og sameina höfundarskrá. Vefurinn opnaði að nýju 10. febrúar 2012

Allar upplýsingar um lausavísur, athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar. Einkum er mikilsvert að fá upplýsingar um höfunda vísnanna, en í sumum tilfellum hefur reynst mjög erfitt að afla upplýsinga um þá.

Hér getið þið farið inn á Vísnavefinn.

Vinsamlegast sendið athugasemdir og ábendingar á netfangið skjalasafn@skagafjordur.is