Fara í efni

Einkaaðilar

Söfnun einkaskjalasafna

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga varðveitir mikið magn einkaskjalasafna. Allt frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á að safna og taka við gögnum frá einkaaðilum enda um mikilvægar heimildir um sögu héraðs að ræða. Í dag eru einkaskjöl rúmlega helmingur safnkostsins. Um 67% fyrirspurna um safnkost Héraðsskjalasafn Skagfirðinga varða einkaskjalasöfn sem sýnir vægi slíkra safna fyrir rannsóknir og umfjöllun um horfna tíma.

Hvað er einkaskjalasafn?

Einkaskjalasöfn eru gögn allra þeirra aðila sem ekki teljast vera afhendingarskyldir aðilar, þ.e. einstaklingar, félög og fyrirtæki. Hér er því verið að tala um fjölbreyttar heimildir, til dæmis og bréfasöfn, fundargerðir, bókhaldsgögn, samninga, greinargerðir og dagbækur. Þá lítum við á ljósmyndir sem gögn en Héraðsskjalasafnið varðveitir mikið safn ljósmynda sem, að langstærstum hluta, kemur frá einkaaðilum.

Afhendingar einkaskjalasafna

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga leitast við að safna og varðveita gögn einkaaðila sem tengjast á einhvern hátt Skagafirði. Við lítum svo á að það sé samfélagsleg skylda allra félagasamtaka sem starfa eða hafa starfað á svæðinu að skila inn gögnum til safnsins enda hafa þau oft á tíðum hlotið ríkulegan stuðning frá sveitarfélögunum og samborgurum sínum.

Skráning einkaskjalasafna

Einkaskjalasöfnum er gert jafnhátt undir höfði og opinberum gögnum þegar kemur að skráningu. Í dag eru öll gögn sem berast safninu, opinber skjalasöfn jafnt sem einkaskjalasöfn, skráð í skráningarkerfið okkar sem finna má á atom.skagafjordur.is. Enn á eftir að flytja og yfirfara eldri skráningar á einkaskjalasöfnum en nokkra yfirsýn yfir slík söfn má finna á samskrá yfir einkaskjalasöfn á landinu inná vefsíðunni einkaskjalasafn.is.