Fara í efni

Aðalgata 16c

Byggingarár: 1917

Heiti: Hofsbúðir

Hönnuður:

Fyrsti eigandi:

Aðalgata 16c. SFA 2018.

Saga: Í brunavirðingu frá árinu 1917 er húsið við Aðalgötu 16c virt sem gripa- og geymsluhúsnæði í eigu Árna Daníelssonar, verslunarmanns. Í virðingunni segir að húsið sem um ræðir sé timburhús, ein hæð með porti og risi þar sem var eitt hesthús, eitt fjós og geymslupláss, loft var yfir öllu húsinu. Stundum hefur þetta hús verið kallað Hofsbúðir en það nafn er talið tilkomið vegna þess að húsið stendur aftan við húsið Hof sem Carl Knudsen kaupmaður átti og þetta hús hafi tilheyrt því. Í daglegu tali er húsið kallað Maddömmukot en þar er starfrækt starfsemi á vegum hóps kvenna sem kalla sig Maddömur og selja þar handverk. Norðurhlið hússins er múrhúðuð og svo má finna mismunandi gerðir timburklæðninga á hinum hliðum hússins. Nýlega var skipt um þakjárn og sperrur og sett ný hurð á vesturhlið. Þetta hús hefur valdið mörgum heilabrotum. Munnmæli segja húsið vera flutt frá Hofsósi eða Grafarósi. Samkvæmt fasteignamati er húsið byggt árið 1887 en ekki hafa fundist ritaðar heimildir sem styðja það. Carl Knudsen kaupmaður fékk lóðina sem húsið stendur á útmælda þetta ár en húsið er ekki að finna á korti eða yfirlitsmyndum fyrr en á árið 1917. 

Hofsbúðir um 1990. Mynd úr safni HSk.

Varðveislugildi:

   • Listrænt gildi/byggingarlist - Lágt - Ágætur fulltrúi dansk-íslenskar gerðar timburhúsa frá 19. öld.
   • Menningarsögulegt gildi - Lágt - Eitt af eldri húsum bæjarins. Hefur gegnt ýmsum hlutverkum, svo sem brennivínssala, geymsla, gærusöltun og handverkssala.
   • Umhverfisgildi - Miðlungs - Bakhús sem er umvafið yngri steinsteyptum húsum en myndast ákveðið samspil á milli Kaffi Króks og Maddömukots.
   • Upprunalegt gildi - Miðlungs - Norðurhlið hússins er forsköluð. Finna má mismunandi gerðir timburklæðninga á hinum hliðum
    hússins. Mætti hlúa betur að upprunaleikanum.
   • Tæknilegt ástand - Miðlungs - Nýtt þak er á húsinu en forskölun ónýt. Húsið þarfnast viðhalds.
   • Varðveislugildi - Miðlungs - Eitt af elstu húsum bæjarins en þarfnast viðhalds.

Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.

Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu