Fara í efni

Sóttkví í sveit

Sóttkví í Lýtingsstaðahrepp

Á tæpum tveimur árum hefur orðið „sóttkví“ farið úr því að vera sjaldgæft í orðaforða flestra í það að verða partur af daglegu tali heimsbúa. En orðið og athöfnin „sóttkví“ er þó langt í frá nýtt af nálinni.

Í skjölum hreppsnefndar Lýtingsstaðahrepps er að finna gögn varðandi sóttvarnir. En þar ákveður Jóhann P. Péturssonar hreppstjóri á Brúnastöðum að setja bæinn Skíðastaði í sóttkví. Skjalið sem Jóhann útbjó er svo hljóðandi:

Sóttkví

Þar ég hefi sannfrétt að veikindi væru enn á Skíðastöðum þá banna ég hér með allar samgöngur frá heimilinu Skíðastöðum og að því heimili. Mega þeir sem þangað koma ekki fara inn í bæinn heldur afgjöra erindi sín undir beru lofti. Bann þetta gildir á meðan nokkur veikindi eru í bænum.

Hver sá sem brýtur á móti þessu banni kæri ég fyrir sýslumanni er mun sekta þann hinn seka eftir málavöxtum.

Skjal þetta festist upp í bæjardyrum á Skíðastöðum almenningi til sýnis og viðvörunar.

Lýtingsstaðahrepp, Brúnastöðum, nóvember 1887.

Jóh. P. Pjetursson
(hreppstjóri)

Í raun höfum við enga vitneskju um hvaða veikindi eða sjúkdómar herjuðu á heimilisfólkið á Skíðastöðum, en ljóst er af aðgerðum hreppstjórans að dæma, að þau hafa verið talin bráðsmitandi. Mögulegt er að um hafi verið að ræða mislinga, en mikill mislingafaraldur geisaði um allt land á þessum árum og má m.a. finna í gögnum Jóhanns hreppstjóra skjal frá árinu 1882 þar sem eru taldar upp varúðarreglur gegn mislingasmiti.

Það er margt sem er líkt með þeim sóttvarnaraðgerðum sem við búum við í dag og settar voru á Skíðastöðum 1887 og ljóst að nú sé ekki í fyrsta sinn gripið til sektar og kæruákvæða við brotum á sóttkvíarreglum.

Mynd: HSk Atb 3066. Sjá má leifar gamla bæjarins á Skíðastöðum

Hreppstjórinn

Ábyrgð hreppstjórans var mikil, þeir sinntu hlutverki laganna varða í sveitum og skal engan efa að starfið hafi verið krefjandi. Jóhann P. Pétursson var settur hreppstjóri í Lýtingstaðahrepp með skipunarbréfi árið 1862 og gengdi því hlutverki í 50 ár. Í Skagfirðingabók segir að Jóhann hafi verið yngstur 12 systkina en foreldrar hans létust þegar hann var 5 ára. Varð hann þá að fara til vandalausra og fór snemma að sjá fyrir sér sjálfur. Jóhann kvænist Sólveigu Jónasdóttur, bóndadóttur í Árnesi árið 1858 og eignuðust þau þrjú börn sem dóu öll í æsku. Jóhann giftist seinni konu sinni Elínu Guðmundsdóttur árið 1866 og voru þau barnlaus en ólu upp fósturbörn.

Þrátt fyrir að hafa ungur misst foreldra sína og mátt alast upp við kröpp kjör, tókst Jóhanni með dugnaði og elju að verða einn af auðugustu bændum í Skagafirði á sinni tíð. Þrátt fyrir auðæfin var Jóhann ævinlega hjálpsamur, hann lánaði mörgum sveitungum sína peninga á sanngjörnum vöxtum og þótti höfðingi heim að sækja.
                                                                                                                                                                                

Á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga eru varðveittar Bændarímur úr Lýtingsstaðahreppi og má þar finna rímu um Jóhann, hún er svohljóðandi:

Hirðir Jóhann Hreppstjóri
Heppinn Brúnastaði
Auðinn þróar sífellt sinn
samt er hann nógu gestrisinn

Sem dæmi um örlæti Jóhanns hreppstjóra stofnaði hann, ásamt konu sinni Elínu Guðmundsdóttur og hjónunum Birni Þorkelssyni og Guðlaugu Gunnlaugsdóttur á Sveinsstöðum, sjóð til styrktar uppeldis munaðarlausra barna í Lýtingsstaðahrepp. Hvor hjónin um sig gáfu 1000 krónur til stofnunar sjóðsins. Sjóðurinn nefndist „Vinargjöf“.

Þó misskipting auðs hafi vissulega notið við í sveitum landsins er ljóst að menn eins og Jóhann voru duglegir að gefa til baka til samfélagsins, enda þekkti hann fátæktina af eigin raun. Með rausnarlegum framlögum til mennta og menningamála skipaðu Jóhann stóran sess í sveitamenningu þess tíma.

Heimildir
IS-HSk-fol.71 ráðstafanir við Mislingum
IS-HSk-Fol.70 Embættisbréf
IS-HSk-N00180 Bændarímur í Lýtingsstaðahreppi
IS-HSk-N00006 Lýtingsstaðahreppur: Skjalasafn
IS-HSk-N00321-C-Atb 3066 Mynd af Skíðastöðum í Lýtingsstaðahreppi
IS-HSk-Cab.1331 Mynd af Jóhanni P. Péturssyni
Skagfirskar æviskrár 1890-1910 II, bls. 135-136.