Gott er að byrja grúskið á að fara í gegnum nokkrar upplýsingasíður og gagnagrunna á netinu. Það er alltaf að aukast framboðið á stafrænum afritum af frumgögnum á netinu en einnig á skjalaskrám, en svo nefnast skrár yfir þau skjöl sem vörslustofnanir varðveita. Næsta skref væri svo að heimsækja skjalasöfnin og fá að skoða áhugaverð gögn. Atom er megin-skráningarsíða Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Starfsmenn safnsins vinna að því að koma öllum skjalaskrám safnsins inn á þessa síðu. Enn á eftir að flytja nokkuð af skrám af "Handritaskrá Héraðsskjalasafns Skagfirðinga" og "Einkaskjalasöfn" en stóran hluta þessara skráa má finna á einkaskjalasafn.is. Þá er nokkur hluti einungis forskráður og er einnig unnið að því að fullskrá safnið og gera skjalaskrárnar aðgengilegar á skráningarsíðunni. Einkaskjöl ná yfir skjöl einstaklinga, félaga/félagasamtaka og fyrirtækja.
Hér eru svo hlekkir yfir aðrar upplýsingasíður sem vert er að skoða:
- Skagfirskar æviskrár - leitarvél. Hér er gott að byrja rannsókn á Skagfirðingum. Leitarvélin nær núna yfir bæði Skagfirskar æviskrár og Byggðasögu Skagafjarðar.
- Íslendingabók
- Legstaðaskrá
- heimildir.is. Þessi síða hefur að geyma stafrænar úr Þjóðskjalasafni Íslands. Meðal þess sem hægt er að skoða hér er manntöl ásamt manntalsgrunninum, fermingarskýrslur, sóknarmannatöl, kirkjubækur o.s.frv. Mjög hjálplegt þegar kemur að rannsókn á lífshlaupi einstaklinga og ættfræðigrúski. Fyrir þá sem eru að rannsaka sögu jarðar er mjög hjálplegt að skoða á þessari síðu landamerkjabækur, ekki síst uppskrift af Landamerkjabók Skagafjarðarsýslu frá 1883-1929 sem er leitarbær. Til að kanna enn frekar hvað Þjóðskjalasafnið geymir af gögnum er rétt að skoða Skjalaskrá Þjóðskjalasafns.
- Landsbókasafn geymir töluvert af einkaskjölum. Hluta af skjalaskrá safnsins er að finna á einkaskjol.is en skrá yfir handrit safnsins er að finna á handrit.is. Þá geymir Kvennasögusafn nokkuð af einkaskjölum af öllu landinu en skjalaskráin er á heimasíðu safnsins.
- Tímarit.is er hafsjór af upplýsingum, hvort sem verið er að leita að upplýsingum um einstaklinga, tíðaranda, atburð eða svæði. Gott að tileinka sér strax "ítarleit" því annars getur leitin orðið mjög tímafrek.
- Þeir sem eru að rannsaka sögu jarðar, bygginga eða svæðis ættu að byrja á því að skoða vefsjá Minjastofnunar Íslands. Þar er hægt að sjá skráðar fornleifar og byggingar ásamt tengingum í skýrslur. Örnefni eru einnig mikilvægar heimildir en þær má nú nálgast á örnefnavef Árnstofnunar, nafnid.is. Þeir sem vilja leggja sitt að mörkum geta svo skráð og staðsett örnefni í gegnum hvarer.is en það er samstarfsverkefni Árnastofnunar og Landmælinga Íslands. Starfsmenn héraðsskjalasafnsins eru tilbúnir að aðstoða fólk við að komast af stað í slíkri skráningu.
- Héraðsskjalasafnið hefur unnið að því í nokkurn tíma að búa til stafræn afrit af ljósmyndum safnsins og gera þær aðgengilegar á skráningarsíðu sinni, atom.skagafjordur.is. En ljósmyndir af Skagafirði er auðvitað að finna víðar. Vert er að benda á Sarp, gagnasafn ýmissa minja- og ljósmyndasafna, sem geymir til dæmis upplýsingar um ljósmyndasafn Þjóðminjasafns Íslands.
- Unnið hefur verið að því að búa til stafræn afrit af völdum handritum safnsins. Slík afrit eru sett inn í skráningarsíðu okkar, atom.skagafjordur.is en einnig má nálgast lista yfir þessi handrit á heimasíðu safnsins, undir gagnasöfn - stafræn endurgerð handrita.
- Ef grúskið ber mann út fyrir mörk Skagafjarðar er gott að hafa samband við viðkomandi héraðsskjalasafn. Hér eru upplýsingar um héraðsskjalasöfn landsins.
- Þeir sem hafa brennandi áhuga á kveðskap ýmis konar ættu að skoða vísnavefinn Braga. Þar má finna sér undirsíðu um kveðskap frá Skagafirði, vísnasafn Skagfirðinga. Einnig er ýmislegt að finna um kveðskap á síðunni Ísmús sem Landsbókasafn og Árnstofnun sjá um.
- Á Ísmús er einnig að finna ýmsis gögn um þjóðhætti. Hafi fólk áhuga á að rannsaka það frekar má einnig benda á Sarp því þar má finna svör við spurningum sem þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins hefur sent út til almennings í gegnum tíðina.
- Ýmis ráð eru fyrir þá sem leita heimilda utan landsteinanna. Fyrsti stoppistaður fyrir þá sem eru að rannsaka vesturfara er heimasíða Icelandic Roots. Þessi samtök reka gagnagrunn um íslenska vesturfara. Hægt að setja þar inn upplýsingar en ef þú vilt leita í gagnagrunninum þarftu að gerast meðlimur og greiða fyrir það gjöld. Tveir erlendir ættfræðigagnagrunnar er nokkuð vinsælir, My ancestry og My heritage en greiða þarf fyrir áskrift af þessum gagnagrunnum. Þarna er hægt að halda utan um ættfræðiupplýsingar fjölskyldunnar en einnig leita í ýmsum mikilvægum heimildum, t.d. skrá yfir innflytjendur o.s.frv.. Þeir sem eru að leita að gögnum um ættingja/einstaklinga sem dvalið hafa á Norðurlöndunum ætti að byrja á því að kanna þjóðskjalasafn viðkomandi lands; Þjóðskjalasafn Svíþjóðar, Þjóðskjalasafn Noregs, Þjóðskjalasafn Danmerkur, Þjóðskjalasafn Grænlands, Þjóðskjalasafn Færeyja. Þá má einnig benda á evrópsku vefgáttirnar Archive Portal Europe og Europeana.