Fara í efni

Lindargata 9

Byggingarár: 1891

Heiti: Goðdalir

Hönnuður:

Fyrsti eigandi: Björn Símonarson

Lindargata 9. SFA 2018.

Saga: Timburhúsið við Lindargötu 9 reis árið 1891 og var upphaflega kennt við þann sem lét reisa það, Björn Símonarson gullsmið en um tíma skaut Björn skjólshúsi yfir sjúklinga á meðan ekkert sjúkrahús var í bænum. Séra Árni Björnsson keypti húsið um aldamót og fékk það þá viðurnefnið Prestshús. Húsið stendur skammt sunnan Ytri-lindar og hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Á ljósmynd frá því kringum 1960 má sjá ýmsar breytingar. Húsið er með kvist með flötu þaki í þakfleti að austan, klætt með hömruðu járni, útihurð að norðan fjarlægð og settur gluggi, tröppur steinsteyptar og vísa beint að hurð, helmingur svala fjarlægðar, kjallari múrhúðaður og settur þar gluggi og hurð, lítil viðbygging að aftanverðu. Í kringum 1996 var farið að huga að endurbótum að húsinu. Samkvæmt teikningum skyldi skyldi færa húsið til upprunalegs horfs. Klæða skyldi húsið með lágréttri timburklæðningu. Gluggar skyldu vera með krosspóstum og lausum fögum. Endurbyggja skyldi svalir og samræma kvista. Í dag eru ýmsar tegundir klæðninga á húsinu, bæði gamlar og nýjar. Settir hafa verið nýjir gluggar og hurðir á framhlið. Nýtt þak hefur verið sett á og kvisturinn tekið  breytingum en á honum var flatt þak en er nú mænisþak.

Lindargata 9. Mynd úr safni HSk. Hcab 467.

Varðveislugildi - metið 2018:

      • Listrænt gildi/byggingarlist - Miðlungs - 19. aldar timburhús að dansk-íslenskri gerð. Ósamræmi í ytri klæðningu og gluggagerð.
      • Menningarsögulegt gildi - Miðlungs - Eitt af elstu húsum bæjarins. Í húsinu var fyrsta eiginlega sjúkraskýlið á Sauðárkróki og leysti úr brýnni þörf. Sjúklingar lágu á lofti hússins þar sem þeir fengu umönnun og hjúkrun.
      • Umhverfisgildi - Hátt - Húsið stendur við elstu byggð bæjarins og fellur vel að þeirri ásýnd.
      • Upprunalegt gildi - Miðlungs - Húsið hefur breyst nokkuð frá upprunalegri gerð, en upprunalegt form húss vel merkjanlegt.
      • Tæknilegt ástand - Lágt - Húsið þarfnast viðhalds.
      • Varðveislugildi - Hátt - Húsið er friðað vegna aldurs og hefur varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og
        umhverfis.

Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.

Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu