Fara í efni

Skógargata 12

Byggingarár: 1896

Heiti: Halldórshús

Hönnuður:

Fyrsti eigandi: Halldór Þorleifsson járnsmiður

Skógargata 12 og 14. SFA 2018.

Saga: Halldórshús er skúrbyggt timburhús undir brekkunni byggt árið 1896 af Halldóri Þorleifssyni járnsmiði. Í brunavirðingum frá árinu 1916 er húsinu lýst á þann hátt: "Húsið er skúrbygging skipt í þrjú íbúðarherbergi, tvö af þeim veggfóðruð og máluð. Eldstæði í þeim öllum, ennfremur 3 eldhús með eldavélum, 2 forstofur, skúr fyrir framan aðra þeirra. Þrjú járnrör og eitt steinsteypurör ganga frá eldstæðunum uppúr þekjunni." Hlaðinn og steinlímdur kjallari er undir sem 1/2 húsinu. Þá er húsið mælt sem 11 metra langt og 4 metra breitt sem passar við lengd hússins út að "suðurstofu" sem byggð var við húsið árið 1930 af Þorvaldi Þorvaldssyni (Skógargata 14). Húsið hefur því verið ein heild, skipt í þrjár íbúðir sem kemur heim og saman við sóknarmannatöl en lengst af bjuggu þar þrjár fjölskyldur.

Halldór Þorleifsson seldi Páli Jóhannssyni húseignina árið 1917 og byggir þá Halldór nýtt hús sem nefnist Grund. Um tíma kallast húsið Björns- og Pálshús í sóknaramannnatölum og síðar Þorvaldar- og Björnshús eftir að Þorvaldur eignast sinn hlut í húsinu. Nafnið Hvammur kemur líklega til með Þorvaldi og nefnir hann sinn eignarhluta hússins Hvamm (Skógargata 14).

Líklega hefur húsið tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina en erfitt er að dæma um það þegar ekki er vitað fyrir víst hvernig það leit út í upphafi. Húsið var stækkað árið 1901 til norðurs en mögulega var þá skúrbyggingin sem var upphaflega byggingin rifin. Á þessum tíma virðist húsið vera skúr við skúr eins og sjá má á ljósmynd frá 1903. Elsti hluti Skógargötu 14 (nyrsti hlutinn) gæti því verið frá árinu 1901. Líklega hefur gluggagerð breyst og um tíma var húsið klætt járnplötum.

 

Skógargata 12 (til vinstri á myndinni). Brot úr ljósmynd frá 1903. Mynd úr safni HSk.

Varðveislugildi - metið 2018:

      • Listrænt gildi/byggingarlist - Lágt - Skúrbyggt lítið timburhús sem fellur illa að ákveðnum byggingarstíl.
      • Menningarsögulegt gildi - Miðlungs - Íbúðarhús sem hefur varðveislugildi vegna aldur síns og ágætt dæmi um híbýli almúgans.
      • Umhverfisgildi - Miðlungs - Hluti götumyndar. Hið áfasta hús (Skógargata 14) hefur nokkuð ólíka ásýnd og draga þau því hvort
        annað niður.
      • Upprunalegt gildi - Miðlungs - Erfitt að dæma um breytingarsögu þegar lítið er vitað um upprunalegt útlit en líkur á að húsinu hafi verið breytt nokkuð.
      • Tæknilegt ástand - Miðlungs - Húsið er í þokkalegu ástandi.
      • Varðveislugildi - Miðlungs - Húsið er friðað vegna aldurs og hefur auk þess varðveislugildi sem hluti götumyndar.

Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.

Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu