Byggingarár: 1892
Heiti: Sauðárkrókskirkja
Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson
Fyrsti eigandi: Sauðárkrókssókn
Saga: Árið 1890 var formlega lagt til að Sjávarborgar- og Fagraneskirkjur yrðu lagðar niður og kirkja reist á Sauðárkróki. Tillagan var samþykkt og um leið var samþykkt að sjóður Fagraneskirkju og gripir gengju til væntanlegrar kirkju á Sauðárkróki. Þorsteinn Sigurðsson smiður var ráðinn til verksins og teiknaði hann og hannaði kirkjuna. Í júnímánuði 1892 var grunnur kirkjunnar fullgrágenginn og húsgrindin reist. Efni til smíðarinnar var fengið hjá Carli Knudsen kaupmanni, en hann var helsti timbursali bæjarins á þessum tíma. Ákveðið var vegna staðhátta að kirkjudyr sneru í austur en slíkt þótti óvenjulegt. Kirkjan var vígð 18. desember 1892 þrátt fyrir að vera ekki alveg fullfrágengin. Hún var fullfrágengin árið 1895, máluð að innan og kirkjuþak sementssmurt, grunnmúr sementeraður. Um leið voru teknar af dyr, sem í öndverðu voru á norðurhlið kirkjuhúss. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Kirkjan hefur verið mikið endurbætt í gegnum tíðina og árið 1998 var síðast farið í miklar framkvæmdir á bæði turni og kirkjuskipi og sjálf kirkjan lengd og kórinn breikkaður og undir hann steyptur kjallari fyrir tæknibúnað. Þá hafði kirkjan verið í töluverðri niðurníðslu og stóð jafnvel til að byggja nýja.
Varðveislugildi - metið 2018:
- Listrænt gildi/byggingarlist - Hátt - Kirkjan ber með sér nýgotneskan svip eins og margar íslenskar timburkirkjur sem byggðar voru á þessum tíma. Hún er hóflega prýdd ytra og í góðum hlutföllum.
- Menningarsögulegt gildi - Hátt - Eitt af elstu húsum bæjarins, kirkja.
- Umhverfisgildi - Hátt - Húsið er mikilvægur hluti af Kirkjutorgi ásamt því að vera útvörður Aðalgötunnar í suðri og kallast á við Villa Nova í norðri.
- Upprunalegt gildi - Hátt - Húsinu hefur verið breytt talsvert og hafa þær breytingar fallið vel að upprunalegu útliti hússins.
- Tæknilegt ástand - Hátt - Húsinu er vel við haldið.
- Varðveislugildi - Hátt - Friðlýst. Hefur varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og umhverfis.
Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.
Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu
Friðlýsing: Umfjöllun Minjastofnunar Íslands