Fara í efni

Aðalgata 2

Byggingarár: 1908

Heiti: Gamli skólinn

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson?

Fyrsti eigandi: Sauðárkrókshreppur

Saga: Gamli skólinn við Aðalgötu 2 var byggður árið 1908 og skyldi hýsa barnaskólann á Sauðárkróki. Barnaskólinn var settur í fyrsta sinn í þessu húsi 19. október árið 1908. Húsið var einnig nýtt undir ýmsa fundi og slökkvilið bæjarins hafði aðstöðu í kjallaranum. Kennt var í húsinu fram til ársins 1948 en ný skólabygging reis við Freyjugötu árið áður. Upp frá því fékk húsið nýtt hlutverk og hýsti það bæjarskrifstofur eftir að skólakennslu var hætt þar. Ýmis önnur starfsemi hefur verið í húsinu, eins og tannlæknastofa Péturs Ólafssonar, teiknistofa fyrir arkitekt, kosningaskrifstofa, skrifstofur fyrir héraðsfréttablaðið Feykir, prentsmiðjan SÁST og upplýsingamiðlun og prentsmiðjan Svart og hvítt. Húsið hefur ekki tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Á tímabilinu 1919 til 1944 var húsið klætt með hömruðu járni (steinblikki). Stigi við inngang og inngangurinn sjálfur var færður til. Undir lok 20. aldar var húsið endurbyggt í upprunalegri mynd og var lokið við þá endurbyggingu árið 2000. Hönnuðir breytinga voru Bragi Blumenstein arkitekt og Leifur Blumenstein byggingarfræðingur (Teiknistofa Leifs Blumenstein). Í febrúar árið 2000 hóf Náttúrustofa Norðurlands vestra starfsemi í húsinu.

Varðveislugildi:

    • Listrænt gildi/byggingarlist - Hátt - Eitt besta dæmi um norsk-íslenska lágrisgerð á Sauðárkróki.
    • Menningarsögulegt gildi - Hátt - Fyrsta húsið á Sauðárkróki sem var byggt var sem barnaskóli og var nýtt sem slíkt til 1948. Einnig nýtt sem bæjarþingsalur.
    • Umhverfisgildi - Hátt - Markar upphaf Aðalgötunnar ásamt kirkjunni og safnaðarheimilinu (gamla sjúkrahúsið). Mikilvægur hluti af götumyndinni í gamla bænum.
    • Tæknilegt ástand - Hátt- Húsið gert upp árið 2000 og þokkalega vel við haldið síðan.
    • Varðveislugildi - Hátt - Húsið hefur hátt varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og umhverfis.

Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.

Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu

MargmiðlunarefniAðalgata 2 - Gamli barnaskólinn