Byggingarár: 1904
Heiti: Sólvangur
Hönnuður:
Fyrsti eigandi: Jónas Sveinsson
Saga: Húsið Sólvangur er timburhús, byggt árið 1904 af Jónasi Sveinssyni oddvita á Sauðárkróki. Húsið er byggt sem lágrisgerð á einni hæð. Jónas flutti úr bænum 1911 og seldi þá Jóni Þ. Björnssyni skólastjóra húsið. Jón fékk leyfi til að hækka húsið um eina hæð árið 1926 og er sú hæð komin á ljósmynd frá 1930. Á þeirri sömu ljósmynd virðist húsið vera komið með bárujárnsklæðningu, alla vegana á suðurhlið. Á ljósmynd frá 1987 er húsið greinilega enn klætt með bárujárni en á austurhlið er hömruð járnaklæðning, og gluggum lítillega breytt. Á þeirri mynd má sjá að búið er að bæta við svölum og svaladyrum á austurhlið. Á annari ljósmynd frá svipuðum tíma má sjá að tröppur hafa verið um tíma steyptar og þær yfirbyggðar. Í upphafi tíunda áratugar 20. aldar er farið að vinna að því að gera húsið upp. Í dag hafa gluggað verið færðir til fyrra útlits, húsið er komið með timburklæðningu og útitröppur eru úr tré.
Varðveislugildi - metið 2018:
- Listrænt gildi/byggingarlist - Hátt - Ágætt dæmi um tvílyft timburhús frá fyrri hluta 20. aldar.
- Menningarsögulegt gildi - Miðlungs - Húsið er skemmtilegt dæmi um hvernig timburhús getur þróast með stækkunum.
- Umhverfisgildi - Hátt - Húsið er hluti götumyndar Skógargötu og stendur á horni hennar og Bjarkarstígs.
- Upprunalegt gildi - Lágt - Við breytingar 1926 missti húsið einkenni lágris timburhúsa. Þrátt fyrir það var í breytingum og nýlegri endurgerð borin virðing fyrir stíl og ásýnd timburhúsa frá fyrri hluta 20. aldar.
- Tæknilegt ástand - Hátt - Húsið er í góðu ástandi.
- Varðveislugildi - Hátt - Húsið er friðað vegna aldurs og hefur varðveislugildi vegna byggingarlistar og umhverfis.
Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.
Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu