Fara í efni

Starfsemi og saga

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga var formlega stofnað í apríl 1947 og var það fyrst um sinn varðveitt í húsakynnum Bóksafns Skagafjarðarsýslu. Stofnun safnsins hafði haft nokkurn aðdraganda og má segja að hugmyndin hafi kviknað í kjölfarið af stofnun Sögufélags Skagfirðinga árið 1937. En félagið beitti sér meðal annars fyrir söfnun handrita og annarra heimilda og að þeim skildi fundinn samastaður í héraði.

Árið 1946 mælti Jón Sigurðsson alþingismaður á Reynistað fyrir frumvarpi þess efnis að heimila skyldi stofnun skjalasafna í einstökum héruðum, sem myndu þó heyra undir yfirstjórn Þjóðskjalasafns Íslands. Lög um héraðsskjalasöfn voru samþykkt í byrjun árs 1947 og í kjölfar þess var Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað og var það hið fyrsta sinnar tegundar. Enginn vafi leikur á að áhugi Jóns á Reynistað á sögu og menningu Skagafjarðar varð til þess að safnið var stofnað.

Hlutverk héraðsskjalasafnsins var, og er enn, meðal annars að innheimta og varðveita opinber gögn innan Skagafjarðarsýslu. Smátt og smátt óx safninu ásmegin, einkum vegna mikils áhuga nokkurra einstaklinga sem lögðu á sig ómælda vinnu í sjálfboðastarfi við söfnun á skjalagögnum og ljósmyndum.

Safnahúsið í byggingu.

Árið 1965 var hafist handa við byggingu nýs safnahúss og flutt í hluta hússins í lok árs 1969, opnun safnsins dróst þó á langinn og var það ekki opnað almenningi fyrr en í byrjun árs 1972.

Fyrrverandi og núverandi héraðsskjalaverðir Skagfirðinga

Fyrsti formlegi skjalavörður við safnið var Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg og gegndi hann því embætti til 1990 er Hjalti Pálsson tók við sem héraðsskjalavörður. Unnar Ingvarsson var héraðsskjalavörður frá 2000 til 2014. Núverandi héraðsskjalavörður er Sólborg Una Pálsdóttir og tók hún við því starfi árið 2014.

Heimild: Kristmundur Bjarnason. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga: 1947-1990.