Stofnskrá Héraðsskjalasafns Skagfirðinga
1. grein
Skjalasafnið heitir Héraðsskjalasafn Skagfirðinga en það var stofnað 23. apríl 1947. Heimilisfang skjalasafnsins er Safnahús við Faxatorg, 550 Sauðárkróki. Starfssvæði skjalasafnsins er sveitarfélagið Skagafjörður.
2. grein
Hlutverk Héraðsskjalasafns Skagfirðinga er að safna, skrá, varðveita, miðla og rannsaka skjöl sem varpa ljósi á sögu Skagafjarðar.
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er mikilvægur hluti af stjórnsýslu sveitarfélagsins, hefur eftirlit með afhendingarskyldum aðilum ásamt því að veita þeim ráðgjöf um skjalavörslu.
Sveitarfélaginu, undirstofnunum þess ásamt þeim lögaðilum sem eru að 51% hluta í eigu sveitarfélagsins, ber skylda til að skila gögnum til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga starfar eftir lögum um opinber skjalasöfn nr. 77 frá 2014 og hefur siðareglur Alþjóðaskjalaráðsins (ICA) að leiðarljósi. Skjöl safnsins eru skráð eftir alþjóðlegum stöðlum (ISAD(G)) og skráningin gerð almenningi aðgengileg.
3. grein
Sveitarfélagið Skagafjörður leggur héraðsskjalasafninu til rekstrarfé. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni.
4. grein
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er sjálfstæð skjalavörslustofnun sem lýtur yfirstjórnar sveitarfélagsins Skagafjarðar en atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Skagafjarðar fer með málefni safnsins í umboði sveitarstjórnar. Skjalasafnið lýtur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands.
5. grein
Reikningar skjalasafnsins eru færðir í bókhaldskerfi Skagafjarðar. Fjárhagur safnsins er aðskilinn frá öðrum rekstri sveitarfélagsins. Reikningar eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og afgreiddir samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
6. grein
Héraðsskjalavörður gerir fjárhagsáætlun fyrir skjalasafnið og leggur fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Skagafjarðar til umfjöllunar. Fjárhagsgerð skal lokið ár hvert fyrir 15. desember samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
7. grein
Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs sveitarfélagsins Skagafjarðar ræður héraðsskjalavörð. Héraðsskjalavörður skal hafa sérfræðimenntun sem nýtist í starfi og þekkingu á opinberri stjórnsýslu.
Héraðsskjalavörður fer með daglega stjórn skjalasafnsins, ræður starfsmenn skjalasafnsins og ber ábyrgð á að unnið sé eftir þeim stefnum sem sveitarfélagið setur um starfsemi sína ásamt samþykktri aðfangastefnu safnsins.
8. grein
Stofnskrá þessi tekur við af stofnskrá safnsins frá 1951 og öðlaðist hún gildi með samþykkt sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 23. október 2024. Með samþykktinni féllu eldri ákvæði úr gildi.