Byggingarár: 1901
Heiti: Lundur
Hönnuður:
Fyrsti eigandi: Sigurður Pálsson læknir
Saga: Læknishúsið var byggt við Suðurgötu 1 árið 1901 að frumkvæði Sigurðar Pálssonar héraðslæknis en húsið var síðar flutt árið 1985 á Skógargötu 10B. Þegar Læknishúsið stóð við Suðurgötu rann Sauðá austan við það og út í sjó. Sunnan við húsið var stór garður þar sem fólk kom saman á hátíðsdögum. Húsið hýsti héraðslækna og fjölskyldur þeirra til ársins 1956 ásamt því að gegna hlutverki lyfjabúðar og skrifstofu sem var í norðvesturenda hússins. Húsið hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar frá upphafi en eftir að húsið var flutt á Skógargötu var unnið að því að færa húsið sem næst upprunalegri mynd. Það má sjá á ljósmyndum að á tímabilinu 1920 til 1925 voru settir kvistir upp af útvegg á austur- og vesturhlið, og svalir yfir forstofu sem sneri til suðurs. Á tímabilinu 1925 til 1957 er húsið klætt með járnklæðningu, hamrað járn á neðri hæð en bárujárn í ris og kvistum. Stór gluggi og hurð sett á vesturhlið. Árið 1978-1979 var húsið mælt upp og teiknað eins og talið er að það hafi litið út í kringum 1925. Árni Friðriksson arkitekt og Finnur Birgisson arkitekt, Teiknistofunni Höfða, unnu það verkefni. Þessar teikningar voru hafðar að leiðarljósi þegar húsið er gert upp eftir að það er flutt á núverandi stað, Skógargötu 10B en það var gert 01.09.1985. Húsið var sett á steyptan kjallara, nokkru hærri en fyrirmyndin. Tillaga að staðsetningu í Skógargötu og aðlögun með tilliti til staðsetningu var gerð af Bergljótu S. Einarsdóttur arkitekt, Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur árið 1985.
Varðveislugildi - metið 2018:
- Listrænt gildi/byggingarlist - Hátt - Húsið er sveitserhús og gott dæmi um slíkan byggingarstíl.
- Menningarsögulegt gildi - Hátt - Eitt af eldri húsum bæjarins. Húsið á sér merka sögu sem læknisbústaður.
- Umhverfisgildi - Hátt - Er ekki á upprunalegum stað en fellur vel að götumynd Skógargötu.
- Upprunalegt gildi - Hátt - Húsið hefur breyst töluvert gegnum tíðina en það hefur verið fært í það horf sem það var árið 1925.
- Tæknilegt ástand - Miðlungs - Húsið er í ágætu ástandi en þarfnast viðhalds.
- Varðveislugildi - Hátt - Húsið er friðað vegna aldurs og hefur varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og
umhverfis.
Heimild: Húsakönnun Sauðárkróks: Norðurhluti gamla bæjar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 2018.
Bein tenging: Umfjöllun í skýrslu