17. júní 2024 eru 80 ár liðin frá því að Íslendingar héldu mikla lýðveldishátíð. Í Skagfirskum annál eftir Kristmund Bjarnason segir:
„Nokkur reipdráttur varð um, hvar lýðveldishátíðin skyldi haldin heima í héraði. Til greina komu Sauðárkrókur, Varmahlíð, Melsgil, Hólar og Garður („Litli-Garður“). Eftir nokkurt þjark, var ákveðið, að samkoman færi fram á Sauðárkróki. Kauptúnið var prýtt eins og tök voru á: Gamlir torfkofar voru jafnaðir við jörðu, rusl flutt burt úr húsaskotum og húsasundum, íbúðarhús máluð eða múrhúðuð. Upp á Nöfum var komið fyrir sjö fánastöngum og flaggað við svo að segja hvert hús. Við kirkjuna var strengdur borði yfir götuna. ... Lýðveldisdagurinn 17. júní rann upp bjartur og fagur. Það andaði af suðri fram eftir degi og gerði smáskúrir. Nú lágu allra leiðir til Sauðárkróks. Hátíðarhöldin hófust með messu í Sauðárkrókskirkju. Séra Helgi Konráðsson predikaði, Kirkjukór Sauðárkróks söng. Kl. 15 var hlýtt á útvarp frá Þingvöllum. Síðan héldu menn út á Eyri. Fyrir mannfjöldanum fór skrúðganga hundrað barna, er báru smáfána, en í fararbroddi gekk íþróttamaður með fána. Sá, sem fór fyrir fullorðna fólkinu, bar Alþingishátíðarmerkið – sýslumerkið – frá 1930. Nokkrir báru þjóðfánann. Talið var, að um þúsund manns hefðu tekið þátt í göngunni.
Hátíðarsvæðið á Eyrinni var fánum skreytt. Séra Helgi setti samkomuna og kynnti dagskrárliði, að beiðni þeirra Guðjóns Ingimundarsonar og Magnúsar Bjarnasonar, sem stjórnuðu fagnaðinum. Dagskráin var í meginatriðum: Karlakórarnir Ásbirningar og Heimir sungu, en ræður flutti Gísli Magnússon í Eyhildarholti og sér Halldór Kolbeins á Mælifelli. Eyþór Stefánsson las upp ljóð eftir Friðrik Hansen, ort í tilefni dagsins. Ásbirningar sungu sama ljóð við lag eftir Eyþór Stefánsson. Þá fór fram íþróttakeppni, og fimmtíu manna flokkur undir stjórn Kára Steinssonar sýndi fimleika.“
(Kristmundur Bjarnason: Skagfirskur annáll 1847-1947, bls. 554-555).
Til hamingju Skagfirðingar og Íslendingar allir með daginn!