Héraðsskjalasöfnin á Norðurlandi vestra tóku höndum saman og unnu skýrslu um móttöku og varðveislu rafrænna/stafrænna gagna.
Í dag er fólki tíðrætt um stafræna umbyltingu og hvernig hún muni vera undirstaða þróunar og hagræðingar. Mikið kapp er lagt á að auka rafræna þjónustu opinberra aðila við almenning. Ekki hefur verið lögð jafn mikil áhersla á langtímavarðveislu rafrænna gagna sem hlýtur þó að vera mikilvægur þáttur í þróun opinberrar stjórnsýslu og ein af forsendum þess að hægt sé að veita aukna rafræna og stafræna þjónustu. Huga þarf að öllu ferlinu, frá því að gögnin verða til og þar til þeim er komið í varðveislu. Það er til lítils að búa til mikið magn gagna sem verða með öllu óaðgengileg eftir nokkur ár.
Í þessu verkefni vildu héraðsskjalasöfnin á Norðurlandi vestra kanna möguleika sveitarfélaganna á svæðinu til að fara í rafræn skil gagna, m.a. kosti við að setja upp rafrænt viðtökuverkstæði á svæðinu en því væri ætlað að uppfylla kröfur Þjóðskjalasafns Íslands um slíkt verkstæði. Viðtökuverkstæði er forsenda þess að héraðsskjalasöfnin geti tekið við rafrænum/ stafrænum gögnum og því mikilvægur hlekkur í því að gera opinberum aðilum á svæðinu fært að fara að fullu í innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu og þjónustu. Verkefnið hlaut styrk frá SSNV og var unnið á tímabilinu 2020-2021.
Skýrsluna má nálgast hér á heimasíðunni undir Útgáfa - Ýmsar skýrslur eða í þessum hlekki: Sólborg Una Pálsdóttir, Sólveig Hulda Benjamínsdóttir, Svala Runólfsdóttir (2021). Móttaka og varðveisla rafrænna gagna. Héraðsskjalasöfnin á Norðurlandi vestra.