Fara í efni

Skráning á gögnum sýslunefndar

Kort úr fórum sýslunefndar af Vallarneslandi
Kort úr fórum sýslunefndar af Vallarneslandi

Um þessar mundir stendur yfir skráning á gögnum sýslunefndar Skagafjarðarsýslu. Sýslunefndir urðu til í kjölfar þess að í maí 1872 var gefin út tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi og komust þá amtsráð, sýslunefndir og hreppsnefndir á laggirnar. Sýslunefnd skipuðu að öllu jöfnu 6-10 fulltrúar sem kosnir voru af sveitarfélögum. Á „Þjóðhátíðinni á Reynistað“ sem svo hefur verið nefnd og haldin í Espihólsstofu Eggerts Briem í júlí 1874 voru mörg þjóðþrifamál rædd og hófst í kjölfarið mikil vakningaralda í Skagafirði sem hreif með sér unga sem aldna. Samgöngumál voru þar ofarlega á baugi og fór það svo að bættar samgöngur, einkum brúarsmíð, voru efst á málaskrá sýslunefndar um áratugaskeið. Eggert Bríem kvaddi svo til fyrsta sýslunefndarfundar í Skagafirði 8. Október 1874 og voru þangað mættir fulltrúar sjö hreppa. Til ársins 1897 voru hreppar sýslunnar tólf. Ákveðið var að þeir fulltrúar þeirra tveggja hreppa sem ekki áttu sæti í nefndinni hverju sinni skyldu mega vera viðstaddir fundi og hafa þar málfrelsi. Einnig að reynt skyldi að halda fundina sem næst miðbiki sýslunnar. Sýslunefndarfundir stóðu í nokkra daga hverju sinni. Meðal þeirra mála sem voru fyrirferðarmikil fyrstu árin voru samgöngumál, heilbrigðismál, lánsábyrgðir hreppa vegna t.d. ræktunarsjóðalána, jarðabætur og kynbætur búfjár, útsvarskærumál, fjallskilasjóðir og fleira.
Gögn sýslunefndar eru mjög umfangsmikil og höfðu þau áður verið forskráð í safninu en nú stendur yfir yfirfærsla þeirra í Atóm sem er það skráningarkerfi sem safnið notar í dag. Um er að ræða fundargerðabækur, erindi og bréf til nefndarinnar, skrá yfir verkfæra menn í sýslunni, bókhaldsgögn og fleira. Sýslunefnd starfaði til ársins 1988 og spanna gögnin því rúmlega 100 ára tímabil.