Í tilefni af alþjóðlega safnadeginum í dag ætlum við að beina augum okkar að þema ársins sem er menningarlandslag.
Í skjalasafni Ara Arasens sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni Skagafjarðar má finna ýmsa dýrgripi. Meðal annars tvö kort sem eru af Flugumýri og nágrenni frá byrjun 19. aldar. Þetta eru handgerð kort, líklega gerð af sama tilefni. Kort A hefur titilinn Teikning af Situations Korti hefur verið lagt fram sem gögn í máli varðandi deilur um landamerki milli Ara Arasonar og bóndans Steingríms Höskuldssonar. Nokkur kennileiti, örnefni og landamerki er að finna á kortinu en einng er hluti af landinu merkt sem þrætu land. Aftan á skjalið má svo sjá ferils plaggsins og hefur það farið í gegnum nokkur vottanir, lagt fram í ýmsum dómsstigum og leggja ýmsir nafn sitt við plaggið. Þar á meðal eru þeir J. Espólín og B. Stephensen og M. Stephensen. Minnst er á þetta kort í dómi landsyfirréttar 11. Janúar 1808. Er gerð athugasemd í dómnum að það vanti örnefni á kortið og þar með samræmi við önnur gögn sem lögð voru fram í málinu. (Landsyfirrjettardómar og hæstarjettardómar í íslenzkum málum 1802-1873. I. Bindi 1802-1814. Bls. 151-157).
Kort B virðist vera af sama svæði en á það vantar öll örnefni. Spurning hvort það hafi verið drög að hinu kortinu eða hvort þetta sé afrit af korti A. Þegar betur er að gáð þá er vatnsmerki á pappírnum. Um er að ræða býkúpu og tré ásamt skrauti.
Þá hefst spennandi leit að uppruna pappírsins. Í gagnagrunni einum, Gravell Watermark Archive, fannst vatnsmerki sem svipar mjög til vatnsmerkisins á korti B. Þetta mun vera merki De Vergulde Bijenkopf /The Gilded Beehive Mill/ Gullna býkúpu-myllan. Árið 1662 var lítil mylla í Wormer í Hollandi keypt af Cornelis Jans Honigh og breytt í pappísgerð. Á sama tíma fékk pappírsgerðin nafnið Gullna býkúpan sem var vísun í fjölskyldunafnið Honigh (Hunang). Árið 1668 var myllan flutt til Zaandijk og með tímanum var hún stækkuð og endurbætt og varð ein mikilvægasta pappírsmyllan í Hollandi. Honigh fjölskyldan hélt áfram að framleiða pappír um langan tíma. Gullna býkúpu-myllan var að lokum seld, árið 1854, til Gerbrand de Jong. Myllan brann svo 1902.
Það sem er forvitnilegt við þessa sögu er að við vitum að Magnús Stephensen keypti 6 bækur býkúpu árið 1798 og talið er víst að hann sé að vísa í umræddan pappír frá Honigh fjölskyldunni (Ferðadagbækur Magnús Stephensen 1807-1808, bls. 97, 70). Ef til vill er Magnús Stephensen höfundur kortsins? Erfitt er þó að halda því fram því tengslin eða skýringin á því eru engan veginn augljós.
Kort eða uppdrættir frá þessum tíma eru fágætir gripir á safninu okkar en gefa okkur mynd af því hvernig fólk sá landslagið í kringum sig og hvaða kennileiti þótti nauðsynlegt að draga fram en einnig hvert er gildi góðra korta. Landamerkjaþrætur hafa fylgt íslensku þjóðinni frá upphafi og enn hefur ekki tekist að ljúka við að setja öll landamerki niður á kort sem hefur augljósan kost eins og menn voru strax farnir að gera sér grein fyrir í upphafi 19. aldar.