Fara í efni

Kristín Sigurrós Einarsdóttir ráðin sem skjalavörður við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga

Kristín Sigurrós Einarsdóttir hefur verið ráðin í starf sérfræðings við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 

Kristín Sigurrós hefur lokið B.Ed. próf í grunnskólakennarafræðum, lokaritgerð hennar var sagnfræðilegs efnis og fjallaði um byggðasögu Hvalfjarðar. Kristín er í MA námi á menntavísindasviði og er að vinna að mastersritgerð sem er einnig sagnfræðilegs eðlis og fjallar um fyrstu skólana í Skagafirði. Auk þessa hefur Kristín sótt námskeið í skjalavörslu hjá Þjóðskjalasafni Íslands ásamt fjölda annarra hagnýtra námskeiða.

Kristín Sigurrós hefur fjölbreytta starfsreynslu. Hún hefur starfað sem grunnskólakennari við Grunnskólann austan Vatna en þar áður hefur hún verið m.a. verkefnastjóri, framkvæmdastjóri, blaðamaður og sjálfstætt starfandi en einnig hefur hún reynslu af störfum af bókasöfnum og veitti hún Héraðsbókasafni Strandasýslu forstöðu um tíma. Í dag hefur hún m.a. umsjón með bókasafni Grunnskólans austan Vatna í forföllum fastráðins bókavarðar.

Kristín hefur tekið þátt í miðlun menningar og sögu héraðssins gegnum verkefni tengd leiðsögn og sýningarhaldi. Má þar nefna ferðir um slóðir Guðrúnar frá Lundi og sýningu um Guðrúnu frá Lundi sem hún setti upp og hannaði ásamt Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, bókmenntafræðingi og hefur sýningin verið nú sett upp á sex stöðum vítt og breytt um landið. 

Við bjóðum Kristínu Sigurrósu velkomna til starfa á safninu.