Fara í efni

Afmælishátíð 7. maí

Sögufélag Skagfirðinga er elsta héraðssögufélag landsins sem enn er starfandi en það var stofnað 1937 og er því 80 ára í ár. Meginmarkmið félagsins er að skrá og gefa út efni er varðar sögu Skagafjarðar. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga var stofnað 1947 og er því 70 ára í ár. Það er elsta héraðsskjalasafn landsins. Meginmarkmið safnsins er að safna, varðveita og miðla gögnum er varða sögu Skagafjarðar.

Til að halda uppá þessi tímamót ætla Sögufélagið og Héraðsskjalasafnið að halda málþing í Miðgarði 7. maí næstkomandi og hlutu til þess styrk frá Uppbyggingarsjóði SSNV og Menningarfélagi Skagfirðinga í Varmahlíð. Yfirskrift málþingsins er “Skagfirsk fræði í fortíð og nútíð” og er ætlað að gefa fólki dæmi um rannsóknir á skagfirskri sögu sem unnar eru innan héraðs og utan. Fyrirlesarar eru Guðný Zoëga en hún ætlar að fjalla um byggðasöguna út frá fornleifarannsóknum, Harpa Björnsdóttir sem fjallar um rannsókn sína á Sölva Helgasyni, Unnar Ingvarsson sem fjallar um Sauðárkrók um aldamótin 1900 og Viðar Hreinsson sem fjallar um Jón lærða og samband hans við Hóla.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun ávarpa samkomuna. Einnig munu taka til máls sveitastjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Ásta Pálmadóttir, Hjalti Pálsson formaður Sögufélagsins og Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður. Boðið verður upp á hátíðarkaffi og vonandi sjá sem flestir sér fært að taka þátt í afmælishátíðinni með Sögufélaginu og Héraðsskjalasafninu.